Ágúst Valgarð Ólafsson fréttabréf apríl 2024
Mamma lést 18.mars síðastliðinn. Útför fór fram í gær, 10. apríl, frá Selfosskirkju. Sorg er ekki ein tilfinning heldur safn af tilfinningum sagði vís vinkona mín um daginn í fyrirlestri. Þakklæti er sú tilfinning sem er ríkjandi hjá mér þessa dagana:
- Ég er þakklátur fyrir svo margt sem mamma gaf mér. Ég sendi inn stutta minningargrein þar sem ég kom þakklæti mínu í orð, smelltu hér til að lesa hana.
- Ég er þakklátur fyrir hvernig fjölskyldan stóð saman í veikindum mömmu.
- Ég er þakklátur fyrir nærveru Guð og uppörvun í lífi mínu. Guð hefur mætt mér á lykil stundum seinustu vikur.
- Ég er þakklátur fyrir hvað útförin í gær gekk vel. Allir sem komu að undirbúningi stóðu sig vel. Mamma hafði beðið mig að segja nokkur orð. Það tók á, ég vissi ekki fyrir fram hvernig ég myndi bregðast við, en svo gekk það mjög vel.
- Ég er þakklátur fyrir hvað veðrið var gott í gær. Það var góð stund í gær að fá að taka þátt í að bera kistuna út í kirkjugarðinn við Villingaholtskirkju og láta hana síga niður til að gefa mömmu hinstu hvílu.
En þetta er ekki eina þakklætið. Í dag er ég líka þakklátur fyrir hvað það gengur vel að byggja upp stuðningsnetið. Ríflega 55% af mánaðarlegum stuðningi er komið. Margir þeirra sem ég hef rætt við eru þakklátir fyrir djörfung og frumkvæði að setja þetta af stað.
Það er mikil vinna framundan að klára að byggja upp stuðninginn, en þetta gengur vel. Ég er alltaf að sjá betur og betur hvað það er skynsamlegt að einbeita sér að því fyrst að ljúka við að byggja upp stuðningsnetið, áður en byrjað er á boðunarstarfinu, verkefninu sjálfu. Reyndar má segja að þessi vinna að byggja upp stuðningsnetið sé mikilvægt verkefni í sjálfu sér. Ég veit t.d. að það sem Guð er að byggja upp og gera í mér í gegnum þetta tímabil er eitthvað sem hann ætlar að nota í þau verkefni sem taka við í kjölfarið. Megi þetta allt vera Guði til dýrðar!
Bænarefni
- Sigurjón Óli er núna í Serbíu, hluti af DTS hjá YWAM í Noregi. Hann kemur aftur heim í lok apríl. Hann er búinn að sækja um vinnu í Nettó – megið gjarnan biðja fyrir því að hann fái þá, eða eða vinnu sem hentar.
- Kolbrún er að vinna að lokaverkefninu sínu eins og nefnt var seinast. Hún þarf að skila því núna í lok apríl, bæn vel þegin!
- Næsta sunnudag, 14.apríl, verðum við Andrési á samkomu í Hvítasunnukirkjunni í Keflavík. Ég mun kynna starfið í predikun á samkomu kl.11.
- Það er á dagskrá að fara í viðtal á Lindinni og kynna verkefnið. Áður en ég geri það þarf að uppfæra www.everynation.is síðuna, gera hana líkari www.icelandalive.com (enska heimasíðan). Ég þarf vísdóm í því hvernig best er að gera þetta.
Þakkarefni (í viðbót við það sem áður er talið)
Við Andrés Guðbjartsson fórum frábæra ferð í kringum Ísland 21-24 mars. Við hittum fólk á Höfn, Egilsstöðum, Akureyri og Ketu í Skagarfirði. Margir bættust í stuðningsnetið, sérlega ánægjuleg ferð. Smelltu hér til að sjá myndir.
Kær kveðja, Ágúst Valgarð